Senn líður að jólum!
Haustið virðist ætla að vera eitthvað áfram hérna hjá okkur. Í síðustu viku fór hitinn undir frostmark á næturna og rétt hékk í fimm gráðum yfir daginn en í þessari viku hefur allt verið í plús:) Úrhellisrigning hefur þó sett svip sinn á hversdagslífið, það rigndi meira að segja svo mikið á miðvikudaginn að ég fór á bílnum í vinnuna (Erlingur var sko veikur)!
Lífið gengur annars sinn vanagang - nóg að gera hjá okkur báðum. Ég tilkynnti mig veika í vinnunni í fyrsta skipti á þriðjudaginn. Var búin að vera með einhvern kvefskít í nokkra daga og ákvað bara að vera heima og slaka á og ná drullunni úr mér. Það hjálpaði og heilsan er öll að koma til og röddin að verða góð aftur.
Jólin nálgast og í ár ætlum við Erlingur að vera svaka skynsöm og versla gjafirnar tímanlega, eins og við reyndar höfum ætlað öll jól hingað til bara með misjöfnum árangri. Við skelltum okkur því í búðir í fyrradag og versluðum stóran hluta af gjöfunum, vantar samt að kaupa aðalgjafirnar ennþá. Hver einustu jól bjóða upp á þann hausverk að finna jólagjafir handa foreldrum okkar og við erum alltaf á síðustu stundu með þær. Í ár er sama sagan. Við keyptum smá handa mömmu og pabba en vantar enn að finna upp á einhverju góðu handa tengdó, ferlega pirrandi sko. Það er svo erfitt að kaupa gjafir handa fólki sem vantar ekkert!! Við endum nú samt alltaf á einhverju og það hlýtur að reddast í ár líka, annars verðum við bara að láta jólaköttinn njóta okkar:)
Þetta verður stutt núna.
/S
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home