Rigning!
Jamm og já, haustrigningin er mætt til Köben:(
Haustið er búið að vera yndislegt, 17-20 gráður nánast alla daga og sól. Svo það var svosem kominn tími á smá haustveður. Veðurspá næstu daga er rigning og rok, og hitastigið á daginn fer undir 15 gráðurnar, þar sem von er á fyrsta hauststorminum á morgun. Hauststormarnir herja aðallega á vesturjótland og ef þeir koma á land þegar það er flóð (ekki fjara) er stundum hætta á að flæði yfir stíflurnar og flóðavarnargarðana ... vesturjótland er nefnilega að miklu leiti uppfyllt land. Við hér í Köben finnum yfirleitt ekki fyrir stormunum nema þeir verði extra sterkir, og þá verður nokkuð hvasst hér, stundum svo hvasst að maður getur ekki hjólað!!!! Danir eru sko ótrúlegir, því að um leið og trjágreinarnar bærast þá er kominn stormur í þeirra huga og það sama gildir um snjó, því ef eitt og eitt snjókorn slysast niður úr skýjunum þá er snjóstormur (snestorm). Orðaforðinn er svolítið takmarkaður þar sem þeir setja samasemmerki á milli blindbyls og snjókomu! En þeir hjóla, hvernig sem veðrið er!
Haustfríið var frábært! Mikið var gott að hlaða batteríið.
Við fórum til Aarhus á sunnudeginum og horfðum á Margréti Huldu keppa á HM í fimleikum á mánudeginum. Jeminn það var ekkert smá gaman!! Hún er ekkert smá góð! Hún endaði númer 118 samanlagt af 230 keppendum, sem er frábær árangur. Hún er nýorðin 17 ára og hefur ekki mikla keppnisreynslu, og var að keppa við þær bestu í heiminum. Það var alveg magnað að horfa á þetta, kínversku stelpurnar maður ... ca. 1.50 cm á hæð og ekki mikið meira en 30 kg og alveg örugglega ekki byrjaðar á túr! Það er 16 ára aldurstakmark á keppendum en þær litu margar hverjar út fyrir að vera ekki deginum eldri en 11 ára. Þetta er sko stelpur sem gera ekki annað en að æfa og æfa, allt annað verður að bíða þar til ferlinum er lokið, sorglegt!
Við Erlingur fengum smá nostalgíukast á sunnudagskvöldið og ákváðum að bruna norður til Aalborg á gamlar slóðir á mánudagsmorgninum því að Margrét átti ekki að keppa fyrr en seinnipartinn. Það var ferlega skrýtið að koma aftur á kollegíið, allt einhvern vegin eins, bara önnur nöfn á öllum póstkössum. Blómalímmiðinn enn á póstkassanum hjá Lindu og Jonna og það var eins og við hefðum flutt síðasta sumar. Rúntuðum aðeins um og kíktum á gamla basann hans Erlings í miðbænum. Það er búið að endurnýja heilmikið þar, en sama vonda lyktin var enn á stigaganginum. Við snæddum hádegisverð á Rendez vouz í götunni (Jomfru Ane Gade) og töluðum um gamlan tíma meðan við röltum um miðbæinn og hlustuðum á norðurjóskuna:)
Þetta var ferlega gaman og skemmtilegt að upplifa borgina aftur.
Eftir fimleikamótið keyrði Erlingur heim, því hann þurfti að vinna næsta dag, og ég varð eftir hjá Helgu. Við dúlluðum okkur á þriðjudeginum á fimleikamótinu auk þess sem ég fór í sónar með henni þar sem Sigursteinn er á Íslandi. Það var æðislegt að upplifa sónar ... hef ekki orð yfir það! Ég tók svo rútuna heim á miðvikudeginum eftir góða Aarhusdvöl.
Haustfríið innihélt meira flakk því við keyrðum til Gautaborgar á föstudeginum og skemmtum okkur frábærlega á George Michael tónleikunum! Jeminn það var meiriháttar, hann er þvílíkt góður á sviði og tónleikarnir voru geggjaðir. Stoppið í Gautaborg var þó stutt því við keyrðum heim eftir hádegi á laugardeginum ... röltum aðeins um bæinn áður en það var bara skítkalt og súld þannig að við ákváðum að sófinn heima væri betri kostur.
Restin af helginni fór í að spila Settlers. Ég keypti það í Aarhus (búin að vera á leiðinni í að gera það LENGI) og við vígðum það á laugardagskvöldið. Þetta spil er snilld og við eigum örugglega eftir að spila oft á köldum dimmum vetrarkvöldum.
Vinnuvikan er rúmlega hálfnuð. Mikið að gera því að það er ný stundatafla hjá öllum. Ég er á námskeiði alla fimmtudaga næstu fimm vikur svo að þetta verður svolítið skrýtið tímabil. En hvað um það ... Ég lét bekkina mína taka smá stöðupróf í stærðfræði fyrir haustfríið til að kanna almenna kunnáttu og jesus minn góður! Fram að jólum set ég mér það markmið að sjá til þess að sem flest þeirra kunni að leggja saman og draga frá, algjör lúxus ef ég kemst yfir margföldun líka! Mér finnst vægast sagt ótrúlegt hve stór hluti þeirra kann ekki undirstöðuatriðin 12-13 ára gömul, og þá meina ég atriði eins og að "lána" og leggja kommatölur saman. Wish me luck!
Over and out ...
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home