Heima í bili!
Noregur var æði!
Ég æfði eins og vindurinn og naut lífsins í botn. Veðrið var svolítið breytilegt, rigndi svolítið mikið, en það skipti ekki miklu máli fyrir mig. Mér tókst reyndar að rústa tveimur tám á fimmtudaginn og þar með var þátttöku minni á æfingum lokið. Ferlegur bömmer:( Það var ki-master frá Kóreu með í ár og hann er algjör kraftaverkakall. Ég er mjög skeptísk á allt vúdú, þ.e.a.s. að fólk geti svifið á hugarorkunni o.s.frv. en ég er seld núna. Ég sá með mínum eigin augum hvernig fólki var "hrint/kastað" með hugarorkunni einni saman, ótrúleg upplifun. Kallinn "hrinti" einni konu úr klúbbnum mínum með því að beina höndunum að henni (hann stóð tveimur til þremur metrum frá henni) þannig að hún datt næstum því. Algjör matrix upplifun! Hann settist hjá mér á bekk á föstudagsmorguninn og hélt höndunum yfir tánum mínum (ég fann alveg mega þrýsting við það) og ýtti laust á örfáa staði í fótleggnum meðan hann var að spjalla við okkur yfir morgunkaffinu. Svo fór hann ca. 5 mínútum síðar og við sátum enn og spjölluðum í einhvern tíma. Nema að svo stend ég upp og hoppaði af stað af mölinni yfir á stéttina til að geta haltrað af stað í herbergið mitt og þá bara gat ég allt í einu staðið í fótinn, hreyft hann og GENGIÐ!!! Ég gat ekki einu sinni stigið í fótinn áður ... þetta var mjög spúkí og nánast allur verkur var farinn! Shit hvað okkur brá. Aldrei hefði ég trúað þessu. Þrátt fyrir þetta ákváðum við að keyra heim seinnipartinn degi fyrr en áætlað var því að ég gat ekkert æft hvort sem var og Erlingur var að fara fljúga til Seattle kl. 6 á sunnudeginum, í dag. Greyið Erlingur þurfti að keyra alla leiðina heim og það tók okkur 8 tíma með öllu ... hann var alveg búinn á því eftir það. Ég fór beint á slysó þegar við komum til Köben og var því ekki komin heim fyrr en kl. hálftvö um nóttina. Dokkinn vildi ekki mynda þetta (sagði að ég gæti fengið krabbamein - hans orð!!) þannig að sætu bólgnu dökksvarbláu og líklega brotnu tærnar voru bara teipaðar.
Við eyddum deginum í gær í afslöppun, Erlingur var útkeyrður. Átum dýrindis sushi í gærkvöldi með Ollýju og Alberti í tilefni afmælisins hans Alberts. Vöknuðum svo klukkan hálffjögur í nótt til að fara út á flugvöll, Albert keyrði fyrir mig. Erlingur átti sumsé að fljúga 05:55 til Amsterdam og þaðan um eittleytið til USA, nú er klukkan 13:45 og Erlingur situr enn á Kastrup og búinn að missa af fluginu sínu áfram. Það er einhver bilun sem búið er að reyna að fiksa í allan dag og annaðhvort verður flogið klukkan 16 í dag og hann gistir í Amsterdam eða þá að hann flýgur klukkan 05:55 í fyrramálið, sólarhring síðar. Ferlegur bömmer!! Hann er að fara á tvo stóra fundi úti og fór degi fyrr til að ná sér eftir jet-lagið en nú er allt ónýtt og hann eyðir helmingi lengri tíma í þetta en til stóð.
Þetta er þess vegna hin undarlegasta helgi. Pippi kemur hingað frá Amsterdam í kvöld. Það var nú ekki á planinu en litla greyið lenti í leiðinlegu atviki í gær svo ég pantaði bara miða fyrir hana hingað til mín svo hún sé ekki ein þarna úti. Hún verður sennilega hérna í einhverja daga meðan hún er að ná áttum, horfum á Dalalíf og svoleiðis.
Take care!
/S