Sumar og sól:)
Sumarið kom og fór um síðustu helgi. Þvílíkt dásemdarveður, 23 gráður, heiðskýrt og sól alla helgina. Við eyddum auðvitað góðum tíma við lestur og sólbað í kirkjugarðinum og mikið var það nú notalegt. Nemendur og kennarar mættu léttklæddir í skólann á mánudaginn og nutu góða veðursins milli kennslustunda, bara yndislegt! Eitthvað var kaldara á þriðjudaginn, ég mætti allavega í síðbuxum í vinnuna, og á miðvikudaginn var skítkalt. Fimmtudagurinn var blautur og kaldur, 8 gráður, rok og rigning. Sennilega veses á skrifstofu veðurguðanna, kannski kjarasamningabarátta? Núna eru rúmar tólf gráður úti svo þetta er allt á uppleið aftur og spáin segir tæpar 20 gráður um miðja viku, jibbí!! Það er pínu depressing að sætta sig við kulda þegar maður upplifði sumrið um síðustu helgi.
Vinnan gengur vel, ég hef allavega ekki enn verið lögð inn. Stend í leiðindamáli þessa dagana, foreldrar að skipta sér af kennslunni minni, en það leysist vonandi í vikunni. Ég er að fara á Louisiana tvisvar í næstu viku. Allir 6. bekkirnir fara og ég fer með tveimur þeirra, læri örugglega helling á því enda eru bekkirnir eins og svart og hvítt!! Vormánuðirnir munu einkennast af stærðfræðiprófum því að krakkarnir þurfa að taka tvö stykki, eitt skriflegt kommúnupróf og eitt nationaltest á netinu. Það verður hellingsvinna fyrir mig að fara yfir kommúnuprófin, lágmark tíu klukkutímar á bekk (sumsé lágmark 20 fyrir mig), en á móti kemur að ég þarf ekki að undirbúa mikla kennslu á tímabilinu:)
.jpg)
Við hjónakornin héldum upp á pappírsbrúðkaup í Prag í páskavikunni. Ferðin var yndisleg í alla staði, við túrhestuðumst eins og við fengjum borgað fyrir það og sötruðum góðan bjór við öll tækifæri. Prag er mjög falleg borg, sem ég er alveg til í að heimsækja aftur, og fólkið mjög vingjarnlegt. Við bjuggum á fínu hóteli, og lifðum eins og kóngur og drottning. Eftir þrjár nætur í Prag keyrðum við til Wroclaw í Póllandi þar sem við gistum eina nótt. Vinnufélagi Erlings var akkúrat staddur í borginni til að heimsækja unnustu sína og við fengum því prívat leiðsögumann, sem sýndi okkur allt það helsta og kynnti okkur fyrir leyndardómi pólsks bjórs. Jeminn eini, við drukkum hvern bjórinn á eftir öðrum, nýja tegund í hvert skipti, og þeir voru allir syndsamlega góðir ... thumbs up fyrir pólskum brugghúsum!! Við renndum í hlað hér heima að kvöldi föstudagsins langa, útkeyrð eftir páskaumferðina á Berlínarhringnum. Allt í allt keyrðum við 2000 km í ferðinni, sennilega 90% af því var hraðbrautarakstur!!
Næstu ferðalög eru í athugun. Mig langar til Hollands í maí og til Íslands í júlí ... kemur allt í ljós síðar.
Af barneignum í kringum okkur er heilmikið að gerast ... ég bíð spennt eftir að verða föðursystir, sem sennilega mun gerast innan tveggja vikna. Helene vinkona mín á svo að eiga eftir þrjár vikur þannig að það er brjáluð spenna í gangi.
Þar til næst ...