:)
16 gráður, heiðskýrt og logn ... já vorið er komið!!
Undanfarnar vikur hafa flogið á ógnarhraða. Það er alltaf komin helgi um leið og vinnuvikan er nýhafin, skil ekki hvernig það er hægt.
Við erum alltaf jafn upptekin við líf og störf. Síðan síðast erum við búin að fara til Aarhus, hlaupa "three legged race", vera full, fara á skíði, æfa taekwondo og helling í viðbót. Aarhusferðin var voða fín, Henný Bára er með ólíkindum rólegt barn, spurning hvort það eldist af henni. Henný Hrund kom með okkur tilbaka frá Aarhus og var hjá okkur í tæpa viku. Hún er hjá Helgu og Sigursteini til að hjálpa með litla krílið og líka í smá ævintýraleit í útlöndum:) Ég var voða dugleg að viðra hana eftir vinnu hjá mér, en sá til að hún væri ekki nálægt Ungdomshúsinu og öllu sem því fylgdi. Það gekk heilmikið á hér í hverfinu meðan á því rugli stóð, þyrlurnar sveimuðu yfir húsunum, danskir, sænskir og hollenskir óeirðalöggubílar voru á vakt í götunum og margir búðareigendur völdu að negla fyrir gluggana og loka hjá sér. Við héldum okkur fjarri Nörrebrogade, Ungdomshúsinu og Blaagaardsplads þessa vikuna vegna þess að maður átti á hættu að vera handtekin án aðvörunar! Löggan gaf út þá yfirlýsingu að allir sem ekkert erindi hefðu í götunum ættu á hættu að verða handteknir þannig að það var engin ástæða til að storka örlögunum. 16 ára sonur samkennara míns var handtekinn klukkan 10:30 í miðri viku þegar hann var á leið í skólann. Hann var látinn dúsa inni í rúma viku. Ástæðan var að hann var svartklæddur og var sennilega ekki nógu fljótur að gefa skýringu á ferðum sínum. Kunningi annars vinnufélaga míns var handtekinn fyrir utan íbúðina sína eitt kvöldið. Hann hafði séð krakka kveikja bál fyrir utan og vippaði sér út til að slökkva eldinn, og í því kom löggan! Talandi um að vera á vitlausum stað á vitlausum tíma!! Lítið við því að gera. Löggan hafði ákveðnar vinnureglur meðan á þessu stóð og því miður lentu nokkrir saklausir í fangelsunum. Ég er dauðfegin að þessu sé lokið í bili. Verst að krakkarnir eru ekki búin að gefast upp - einhver þeirra hafast við í tjaldi á Ráðhústorginu, sem þau verða að hafa fjarlægt 1. apríl. Ætli vorið bjóði ekki upp á hústökuöldu!
Nú við skelltum okkur á skíði með stelpuna. Keyrðum til Svíþjóðar eftir vinnu einn daginn og skíðuðum fram á kvöld. Það var ferlega gaman að komast aðeins á skíði í vetur þó stefnan sé að gera enn betur á næsta ári.
Páskarnir nálgast og plönin eru að skýrast. Við stefnum á Prag og kannski smá stopp í Póllandi og Berlín líka. Við göngum frá smáatriðunum í kvöld varðandi hótel o.s.frv. Brúðkaupsafmælinu verður því eytt í rómantískum strætum einnar af fyrrverandi menningarborgum austurevrópu. Okkur hefur langað að koma til Prag í mörg ár og nú lítur út fyrir að draumurinn rætist:)
Páskafrí eftir tvo daga. Mikið verður það gott. Ég þarf virkilega á batteríshleðslu að halda. Svo eru aðeins 11 kennsluvikur eftir að fríinu loknu og nokkrar þeirra eru "stuttar" vikur með hinum ýmsu frídögum, Store Bededag, 1. maí, uppstigningardagur, hvítasunnan og fleiri. Þar af leiðandi verður tíminn örugglega (alltof) fljótur að líða fram að sumarfríi og næst þegar ég skrifa hér verður örugglega komið haust aftur.
Veðurspá næstu daga er eins og síðustu daga, heiðskýrt og sól:) Það er yndislegt að vakna við fuglasönginn á morgnana og finna fyrir morgunsólinni í andlitið á leiðinni í vinnuna.
Adjö
S