17.1.07

Vetur konungur ...

... lætur enn bíða eftir sér!

Hef ekkert notað gammósíurnar í vetur og það sama má segja um kuldaskóna, sem ég notaði bara á Íslandi í staðin. En, ég var að skoða langtímaspána og það á að frysta eftir helgi ... jibbíkóla!

Íslandsferðin var vel heppnuð. Það var auðvitað smá seinkun á fluginu okkar en ekkert til að væla (mikið) yfir. Sundferðir voru margar og góðar og mikið rosalega sakna ég þeirra núna. Við vorum svo heppin að hafa íbúð í láni og sömuleiðis bíl svo að við vorum ekki eins mikið upp á fjölskylduna komin eins og oftast áður og jemin eini hvað það var næs. Ég át á mig gat af skötu á Þorláksmessu í skötuveislunni hjá pabba og stóð mig vel sem eini kvenkyns gesturinn í ansi mörg ár:) Um kvöldið röltum við niður Laugaveginn eins og lög gera ráð fyrir með Sigga og Hörpu og enduðum á kaffihúsi niðri í Austurstræti þar sem Helga, Sigursteinn, Ollý, Kalli og Tanya hittu okkur stuttu seinna. Við hjónin vorum svolítið eftir okkur því að við hittum ENGAN sem við þekkjum á meðan Siggi og Harpa þekktu annanhvern! Við erum greinilega búin að vera of lengi í burtu og þeir sem maður þekkti áður fyrr hafa sennilega breyst (og elst) og þess vegna þekkir maður þá ekki í dag ... skrýtið samt því að við höfum hvorugt elst eða breyst. Ég hitti reyndar einn gamlan bekkjarfélaga úr Breiðholtsskóla, en það telst næstum ekki með því að Harpa er víst fóstra dóttur hans á leikskólanum! Kvöldið var mjög fínt og ekki skemmdi fyrir að við urðum vitni að árekstri þar sem gerandinn stakk af, alltaf gaman að hafa smá aktion. Einhver smágutti á risastórum pabbabíl bakkaði á kyrrstæðan bíl fyrir utan kaffihúsið, og þrátt fyrir að gangandi vegfarendur reyndu að tala hann til þá valdi hann að stinga af, með pelsklæddu mömmuna í framsætinu og uppstríluðu "Bratz"systurina í aftursætinu. Siggi bróðir hringdi auðvitað í lögguna og stuttu síðar mætti ein Harleylögga og skoðaði kyrrstæða bílinn og tók myndir. Ég vippaði mér út og gaf stutta skýrslu og fékk þær upplýsingar að þeir hefðu fundið stráklinginn um leið og hann hefði neitað í fyrstu en svo viðurkennt þegar honum var sagt að það hefðu verið vitni ... mamman reyndi víst að skipta sér af og ljúga fyrir soninn:) Ísland í dag ... Á leiðinni heim rifjaðist það upp fyrir mér að akkúrat fyrir tíu árum á Þorláksmessu bakkaði ég utan í kyrrstæðan bíl niðri í miðbæ á bílnum hennar ömmu og ég stakk ekki af heldur skildi eftir miða, gleymi því aldrei, mitt fyrsta og eina umferðaróhapp þar sem ég hef verið undir stýri!

Aðfangadagskvöld og dagur var stórfínn. Ég gerði stórfínan Ris a´la mande í hádeginu, sem vakti mikla lukku og svo héldum við mamma, pabbi, Lína og Simon í gufuneskirkjugarðinn eftir það. Klukkan sex mættum við í kirkjugarðinn í Hafnarfirði með Sigga og Hörpu og óskuðum ömmu, afa, Ingvari og langömmu og langafa gleðilegra jóla og eftir það héldum við heim að sinna matnum. Allt fór vel fram, Lína féll og borðaði eitt rósakál í skiptum fyrir að fá að opna eina gjöf á undan öllum öðrum (hún er 26 ára!!!), og eftir mikið át og frágang sátum við í sófanum og lásum á pakka og opnuðum gjafir. Undir lok opnunarinnar komu Siggi og Harpa og tóku þátt í síðustu stundunum með okkur, sem var komin út í sjerrídrykkju í mínu tilfelli.

Við Erlingur vorum vel undirbúin undir að vera aðskilin meirihluta hátíðarinnar og það tókst bara nokkuð vel. Einu skiptin sem við vorum saman var í hádeginu á jóladag þegar við borðuðum kökur og drukkum heitt súkkulaði í Hafnarfirðinum og á annan í jólum þegar Erlingur Mark var skírður í Hléskógunum. Skírnin fór vel fram og guðfaðirinn (Erlingur eldri eins og hann kallast núna) stóð sig afar vel, guttinn grét bara einu sinni í fanginu hjá honum.

Milli jóla og nýárs dúlluðumst við heilmikið, en ekki eins mikið og til stóð. Stór hluti fór í að sinna ameríkönunum, Michael, Susan og Malcolm, sem voru í Reykjavík yfir áramótin. Erlingur sá nú mest um það, enda þekkir hann þau betur en ég geri, en ég fór samt í langa dagsferð með þeim ... gullna hringinn, þar sem við enduðum í humarveislu á Stokkseyri um kvöldið. Humarinn var geggjaður!!! Ég eyddi nokkrum dögum í hausverk, lá nánast fyrir og get lítið gert annað en að bryðja verkjatöflur, gaman gaman. Mér tókst samt að halda mér nægilega hressri til að hitta hluta gamla bekkjarins míns úr barnaskóla á kaffihúsi eitt kvöldið og það var meiriháttar gaman:) Alltaf gaman að sjá hvernig fólk hefur breyst/ nú eða ekki breyst.

Áramótin fóru fram í Hléskógunum. Ameríkönunum var boðið í hangikjet, á brennu og flugeldasýningu í boði íbúa Reykjavíkurborgar (útsýnispallur í Hléskógunum) og það er óhætt að segja að þau höfðu ALDREI upplifað annað eins því þau héldu að flugeldunum yrði skotið við brennuna á sérstakri sýningu. Djammað var frameftir morgni við spil og dans, tengdó á píanó og Michael á gítar töfruðu fram slagarana hvern á fætur öðrum. Þau voru víst ansi þreytt þegar þau fóru á fætur klukkan 5 til að mæta í flug, enda skiluðum við þeim ekki á hótelið fyrren klukkan 4 um nóttina.

Hverdagslífið tók við strax eftir heimkomu þann 2. jan. og ég mætti í vinnu þann 4. jan. Á sunnudaginn síðasta tókst mér aftur á móti að næla mér í einhvurn flensuskratta og er búin að vera veik heima síðan en reikna með að mæta í vinnuna á morgun "hress og kát" (drullukvefuð).

Fyrir ári síðan sat ég sveitt yfir bachelorverkefninu mínu. Núna finnst mér heil eilífð síðan. Mér finnst aftur á móti ekkert svo langt síðan ég varð 30 ára (5 dögum eftir skiladaginn) og þess vegna er svolítið skrýtin tilfinning að ég skuli eiga afmæli í næstu viku, ég átti jú afmæli í síðustu viku (eða svo). O my ... I am getting old!

S