15.12.06

Jólin koma ...

Eftir langt haust ... veturinn lætur enn á sér standa ... eru jólin loksins að koma!

Allt við það sama í vinnunni, nóg að gera og tíminn flýgur frá mér. Aðeins tveir kennsludagar eftir og þeir verða vonandi næs og afslappandi. Á miðvikudaginn er juleafslutning þar sem nemendur og kennarar taka þátt í jólashowi milli 9 og 11 í salnum og klukkan 12 hefst julefrokost kennarastofunnar og stendur fram eftir nóttu, eða þar til sá síðasti fer heim. Ég var plötuð í að spila með í karokíhljómsveit (og þá meina ég plötuð, hélt við værum bara að fara að hittast og spila saman og hjálpa hver annari!!) og við munum spila nokkur vel valin lög þar sem öðru starfsfólki stendur til boða að syngja með (Last Christmas, Happy X-mas o. fl.). Reikna með að fá mér smá í fótinn áður en það hefst:) Annars á hvert team að velja sér sjónvarpsseríu og troða upp, við völdum Dallas og ég er Pam!! Það verður örugglega skrautlegt! Eftir miðvikudaginn er ég komin í langþráð jólafrí og mæti ekki til vinnu aftur fyrr en 4. janúar - ekkert smá næs!

Undanfarið hef ég haft það á tilfinningunni að ég sé að kafna. Mér finnst mér ekkert verða úr verki og að allt sé að komast á deadline þó að það sé ekki svoleiðis í alvörunni því að ég stend í skilum með allt. Held að skammdegið fari svona í mig, dagurinn er hreinlega of stuttur. Skil ekki hvernig ég lifði veturinn af á Íslandi her áður fyrr, þar er dagurinn jú enn styttri, hér er orðið nokkuð bjart um hálfníu og fer ekki að skyggja að ráði fyrr en upp úr fjögur - hálffimm. Snjórinn hefur sennilega hjálpað til því hér er bara haustveður, rakt og þungbúið, og manni er farið að lengja mikið eftir kuldanum. Haustið er það heitasta í mörg ár og það lítur út fyrir að desember og reyndar allt árið slái sömuleiðis hitamet (árið þá sem það heitasta frá upphafi mælinga 1874!), samt voru fyrstu mánuðir ársins undir meðallagi!

Í haustveðrinu í dag, úrhellisrigning og tæpar 12 gráður, skellti ég mér í jólatívoli með Helgu Báru. Hún kom í gær frá Aarhus og situr í vélinni einhversstaðar yfir Atlantshafi í þessum rituðu orðum á leið til Íslands. Það er alltaf gaman að koma í jólatívolíið og fá smá jólastemningu beint í æð, og ekki skemma eplaskífurnar og glöggið fyrir. Þegar ég keyrði hana út á völl seinnipartinn þá upplifðum við jólastuðið á Kastrup líka. Taskan hennar var 24,2 kg og gellan (var kannski á prósentum og vildi auka jólabónusinn sinn) rukkaði fyrir yfirvigt! Helga er nú aldeilis vön að ferðast og ferðast yfirleitt með mun meira en hefur aldrei þurft að borga áður, þannig að það var heppilegt að ég var með því við losuðum tvö kg úr töskunni (við E. tökum það með okkur) og þá fékk hún að sleppa. Auðvitað er eðlilegt að ætlast til að maður haldi sig við mörkin en come on, kasólétt stelpan átti að borga fyrir tvö kíló, hefði verið skiljanlegt ef hún hefði verið með yfir 25 kílóin! Þannig að við vitum af þessu og munum klæðast þungu og pakka skynsamlega í næstu viku:)

Er farin að hlakka til að koma til Íslands og borða kjötbollurnar hennar mömmu og að ég tali ekki um nammið, pylsurnar, langlokurnar og bq-borgarann á KFC:) Þetta verða átjól hin mestu!

Sigurveig