11.9.06

5 vikur í haustfrí!

Jamm, eins og fyrirsögnin gefur til kynna eru 5 vikur í langþráð haustfrí. Ekki það að ég sé að gefast upp, heldur er haustfríið merki um að fyrsti hluti vetrarins sé yfirstaðinn og að jólin séu að nálgast.

Síðasta vika var ekki auðveld! Ég lá í bælinu helgina áður með hálsbólgu, kvef, hausverk og hitavellu. Þrjóskan ég mætti samt í vinnu á mánudeginum, því ekki fer maður að tilkynna sig veika strax í upphafi vinnuferilsins, og þraukaði daginn uppdópuð af verkja- og hálstöflum. Vikan var löng og ströng, sérstaklega heilsulega séð, og ekki bætti það að einum af nemanda mínum var vísað úr skóla á miðvikudaginn í tvo daga vegna lélegrar hegðunar (talsmáti hins unga manns gagnvart okkur kennurunum var rúsínan í pylsuendanum). Preteensyndromið er alveg að fara með marga af nemendunum. Það var sumsé mikill léttir þegar föstudagurinn rann upp bjartur og fagur og tilhugsunin um helgarfrí var raunhæfur kostur.

Ég hljóma eflaust drulluþreytt og pirruð á vinnunni í augnablikinu. Málið er samt að ég er mjög ánægð og líkar vinnan vel. Krakkarnir eru langflest hin vænstu grey og vinnufélagarnir vilja allt fyrir mann gera. Þegar maður er nýr kennari og á nýjum stað er svo margt sem maður þarf að hugsa, muna eftir og fleira. Ég kenni 5 bekkjum, þremur 6. bekkjum og tveimur 2. bekkjum, samkvæmt stundaskrá. 2. bekkingum kenni ég íþróttir og þar sem við erum tveir kennarar með tvo bekki saman þá kenni ég í rauninni fjórum 2. bekkingum. Glætan spætan að mér muni nokkurn tíma takast að læra nöfnin þeirra, allar Isabellurnar, Victoriurnar, Emilarnir, Emiliurnar, Amaliurnar, Sebastiarnir, Kristofferarnir, Carolinurnar og Sofiernar ... shit! Ég er með tvo 6. bekkina á hreinu og einstaka nöfn í hinum bekkjunum ... þetta kemur vonandi með kalda vatninu:)

Dagarnir eru oft strembnir. Maður hleypur mikið fram og tilbaka að redda hinu og þessu. Ég kenni ca. 25 tíma á viku, sem telst ágætlega mikið, en er aldrei búin að kenna seinna en kl. 13:30 á daginn (ljúfa lífið að vera kennari). Frá upphafi skólaársins og fram að haustfríi er mikið um fundi, almenna kennarafundi, teamfundi og hina ýmsu kúrsa, svo það er ekki eins og vinnudeginum ljúki að kennslu lokinni, því maður situr oft á tveggja til þriggja tíma fundum fram eftir degi. Ofan á það bætist svo undirbúningsvinnan. Ég reyni að vera mjög raunhæf og fylgi kennslubókunum eftir bestu getu og forðast þannig að þurfa að uppgötva hjólið fyrir hverja kennslustund. Það hefur gengið ágætlega hingað til:)

Í gegnum árin hef ég verið í æfingakennslu í hinum ýmsu skólum en þvílíkur munur sem það er að vera ein!! Maður hefur alltaf verið svolítið bundin yfir sameiginlegu kennsluáætluninni fyrir hópinn og því hefur lítið mátt fara úr skorðum, en núna nær maður bara því sem maður nær og heldur bara áfram þaðan sem frá var horfið í næsta tíma. Þar að auki er enginn að fylgjast með manni (svoleiðis séð) þannig að maður er mun afslappaðri ... hreint dásamlegt bara.

Until next ...

/S