25.6.06

Sumarið er tíminn ...

... þegar mér líður best:)

Loksins er ég komin í sumarfrí. Og það er ekkert venjulegt sumarfrí í ár ... Ég er nefnilega búin með skólann og þar með öll próf líka. Þvílíkur léttir!!!

Ég kláraði prófin með stæl, 10 í tónmenntakennaraprófinu! Og ég sem er hörmulega léleg á píanói. Það dró mig líka niður, annað væri nú ekki normalt, þannig að 10 í einkunn er auðvitað frábært miðað við það. Ég fékk svo 8 á skriflega stærðfræðiprófinu, átti von á sjöu þar sem ég kláraði ekki nema 80% af prófinu og vissi um nokkrar smávillur í settinu. Mér tókst svo á einhvern ótrúlegan hátt að fá 10 í munnlega prófinu!!!!!! HAhahahahahah ekkert smá kúl. Munnlega prófið var fjögurra tíma próf og við vorum þrjú í grúbbunni. Það voru 13 stærðfræðifagefni og 13 stærðfræðikennslufræðiefni. Við einbeittum okkur að fagefnunum, sem voru ca. 30% af prófinu í heildina, og lásum 150 síður í almennri kennslufræði (mestmegnis tengdri stærðfræði) og tókum þar með sénsinn:) Í prófinu dregur maður efni og efninu fylgja tveir textar sem maður á að tala út frá varðandi efnið. Það gekk svona líka brilljant (þrátt fyrir að aðaltextinn væri á sænsku) og við gátum notað almennu fræðina við allt!!! Fagefnið var líka "gott", þ.e.a.s. það var efni sem við vorum góð í, Pýþagóras:) Og ég sló sérstaklega í gegn í því, þar sem ég fékk að enda prófið á sönnun sem ég hafði ekki skrifað upp á töfluna fyrirfram (hélt ekki að við myndum ná henni) og það gaf extra bónusstig að ég gæti farið í gegnum hana án pappíra!!! Þvílík gleði og hamingja allt saman:)

Ég er sumsé kennari og útskriftin er á miðvikudaginn!!! Loksins.

Þrátt fyrir að ég hafi haft mikið að gera undanfarið hef ég haft smá tíma fyrir taekwondoið og gerði mér lítið fyrir og nældi mér í rauða beltið fyrir viku. Stóð mig bara mjög vel og fékk mikið hrós frá yfirþjálfaranum. Mér tókst náttúrulega að slasa mig "örlítið" í bardagahlutanum og öklinn á mér er enn köflóttur núna viku seinna. Ég bólgnaði svakalega upp, svo mikið að einn félagi minn var handviss um að ég væri brotin, hehe ... Ég var sem betur fer ekki svo óheppin, en ætla samt að bíða með að mæta á æfingu þar til í lok vikunnar.

Erlingur er í Noregi. Hann er að taka 2. dan prófið sitt akkúrat núna. Þessi hetja tók skriflega prófið fyrir þremur vikum og skoraði 95% og er sennilega að brillera í því verklega núna. Ég krossa fingur og vona að hann slasi sig ekki, sérstaklega þar sem við erum á leiðinni til Kóreu ... þessi elska þarf sko að brjóta tvo múrsteina með hnefanum og slást við fullt af kornungum nojaraguttum sem hafa enga stjórn á fótunum á sér. Hlakka til að heyra frá honum seinna í dag:)

Næstu daga og vikur er allavega afslöppun hjá mér. Ég tek einhverjar morgunvaktir í vinnunni þar til við förum út, en annars ætla ég bara að njóta lífsins og lesa skemmtilegar bækur (ekki skólabækur). Keypti Pride And Prejudice í gær á 40 kall og ætla að skella mér út í kirkjugarð á eftir og lesa í henni.

Sumarkveðjur
Sigurveig