Sumarið nálgast!

Þessa dagana stend ég í mínum síðustu prófum og ég ætla rétt að vona að þetta séu mín síðustu próf. Ef ég fæ einhvern tímann þá flugu í hausinn aftur að fara í skóla, endilega þá fælið hana í burtu.
Ég tók skriflega stærðfræðiprófið fyrir 10 dögum og vona að ég hafi náð því. Tónmenntakennaraprófið er þriðjudag til fimmtudag í næstu viku og munnlega stærðfræðiprófið er þann 22. júní. Skólaslitin eru 28. júní og að þeim loknum tekur við frí!!
Við förum til Suður-Kóreu 16. júlí í taekwondoferð og verðum í þrjár vikur. Fyrsta vikan fer í íhugun í munkahofi uppi í fjöllum, með tilheyrandi hrísgrjónum og grænmetisfæði! Reikna ekki með að fitna þá vikuna. Annari vikunni eyðum við við tækniæfingar úti við strönd. Ég hlakka mikið til þess, langar að bæta tæknina mína svolítið. Síðustu vikuna verðum við í Seoul að túristast og versla:) Við komum aftur heim 6. ágúst. Á meðan við verðum úti verða Ollý, Albert og Dísusysturnar í íbúðinni okkar og passa upp á að blómið okkar fái eitthvað að drekka.
Ég er komin með vinnu í ágúst! Skólinn er 15 mínútur héðan og ég verð sennilega að kenna miðstigi og efstastigi. Ég var í klukkutíma viðtali (venjulega er ca. hálftími) og stemningin var góð. Á að mæta á morgun á starfsamannafund þar sem stundatöflum er púslað saman. Það var sko mikill léttir að fá þessa vinnu og áhyggjum varðandi atvinnuleysi lokið. Ég var reyndar komin með aðra stöðu í öðrum skóla, sem mér leyst ekkert alltof vel á. Þar átti ég að kenna í mörgum enskutímum, myndmennt og kristinfræði og vera umsjónarkennari í 3. bekk. Og þar að auki var sú staða bara afleysingastaða fram í febrúar. Ég var þess vegna súper fegin að hafa fengið hina stöðuna líka:)
4. apríl síðastliðinn giftum við okkur á Ráðhúsinu. Dagurinn var yndislegur í alla staði. Kalli, Tanya, Helga Bára og Lína Dögg voru með okkur og sáu til þess að dagurinn fór vel fram. Hann hófst með því að ég sótti Línu á flugvöllinn og því næst borðuðum við öll snemmbúinn hádegismat. Eftir sturtu og klæðskiptingar skáluðum við í kampavíni og nörtuðum í jarðaber áður en við röltum út á strætóstoppistöð. Stelpurnar stungu okkur af á leiðinni niður tröppurnar og birtust á stoppistöðinni með risablómvönd, ég hafði nefnilega gleymt að spá í því sjálft:) Við vorum mætt á Ráðhústorgið tímanlega og Kalli tók nokkrar "before" myndir af okkur. Sjálf athöfnin tók nokkrar mínútur og var voða sæt. Kalli og Lína voru vottar og stóðu sig vel (veit nú ekki hversu mikið þau skildu). Það voru í allt 4 pör sem áttu pantað í giftingu á sama tíma og við. Við vorum þau einu sem voru með gesti og ég var eina brúðurin sem var ekki á steypinum!!! Eftir athöfnina fórum við út á torg þar sem stelpurnar hentu hrísgrjónum yfir okkur við mikinn fögnuð dúfnanna, sem réðust á okkur í orðsins fyllstu merkingu. Allar dúfur Ráðhústorgsins mættu á no time og okkur leið eins og myndinni Birds, við gátum ekki hreyft okkur fyrir þeim, þeir voru meira að segja að gogga í fæturnar á okkur! Þar sem við vorum öll orðin svöng og gæddum okkur á ekta ráðhúspylsum við mikla eftirtekt gangandi vegfarenda, sem fannst uppátækið okkar ansi sniðugt. Deginum eyddum við svo á La Glace, þar sem við borðuðum bestu kökur í heimi, áður en við héldum heim í kotið seinnipartinn. Um kvöldið fórum við á steikhús og átum á okkur gat! Dagurinn var meiriháttar vel heppnaður í alla staði, ekkert stress og ekkert vesen. Sólin skein, dúfurnar kurruðu og við urðum hjón:)
Á laugardeginum héldum við svo svaka partý. Það var sko mikið dansað og sprellað og fíflast og drukkið. Síðasti gesturinn fór um hálfsexleytið um svipað leyti og Prodigydiskurinn var búinn!! Lína og Helga sáu um skemmtiatriðin, fullt af skemmtilegum leikjum og uppákomum. Við fengum óvenjumargar gjafir, áttum ekki von á því, og sérstaklega peningagjafir upp í Kóreuferðina. Þúsund þakkir hér með til allra sem voru svona örlátir og takk fyrir komuna!
Lífið er annars alveg eins þó maður sé giftur, eina er að það er soldið skrýtið að vera ekki kærustupar lengur heldur hjón! Við erum bæði tvö ennþá að mismæla okkur á því:)
Until next ...