Komin á fertugsaldurinn!
Mikið hefur gengið á í lífi mínu síðustu vikur.
Við hjónaleysin áttum róleg og góð jól hér í kotinu okkar. Fengum margar og góðar gjafir og þökkum fyrir okkur. Áramótin voru líka róleg og góð. Doktor Helga og Sigursteinn voru hjá okkur yfir áramótin og á gamlárskvöld komu Steinar og Halldóra yfir til okkar. Við átum hangikjöt, horfðum á Miss Sophie og James ..., skáluðum í freyðivíni og röltum niður að vatninu til að sjá flugeldana. Um nóttina spiluðum við Partýspilið, Hættuspilið og Trivial Pursuit yfir nokkrum bjórum. Allt fór sómasamlega fram, sumir fóru fyrr að sofa en aðrir, og enginn fékk rakettu í hausinn!
Lína systir stoppaði í Köben á leiðinni til Hollands þann 30. des. Við dúlluðumst í Tivoli og á kaffihúsi þar til ég fylgdi henni á völlinn. Voða kósý og rólegt ... eplaskífur og glögg:) Helga, Sigursteinn, Erlingur og ég borðuðum svo sushi um kvöldið og á leiðinni heim þaðan hringdi Lína og sagði að hún væri á leið á hótel í hér í Köben því að fluginu hefði verið frestað vegna snjókomu í Amsterdam. Þar sem klukkan var orðin margt og hún átti að fljúga snemma næsta morgun ákváðum við að hittast ekkert ... það hefði samt verið gaman að gera eitthvað sniðugt saman, en Lína var svo kvefuð og orðin hálfveik þannig að ekkert varð úr því.
Janúarmánuði hef ég eytt við tölvuna. Ég skilaði bachelorverkefninu mínu 20. janúar!! Mikill léttir! Vörnin er 15. febrúar og ég hlakka mikið til að ljúka henni af. Það var smá sigur að skrifa þetta verkefni þar sem það er á dönsku og ég skrifaði það alein! Nú stefni ég að því að útskrifast á réttum tíma í júní næstkomandi því það eru sko alls ekki allir sem gera það. Aðeins 65% af árganginum skilaði bachelornum (53% í fyrra) og það eru ansi margir sem stefna að því að klára næsta vor í staðinn, hafa sumsé frestað prófum í fyrra eða í ár. Ég hef hins vegar staðist hingað til og ætla mér að verða kennari í sumar, og hananú!!
Eins og fyrirsögnin segir þá er ég komin á fertugsaldurinn. Síðustu fimm daga hef ég verið "fullorðin" og hegðað mér í samræmi við það. Fyrir viku leit ég í spegil og sá að nú yrði að gera eitthvað í mínum málum og ég pantaði því tíma í botox ... bara að plata:) Ég fór nú bara í plokkun og litun. Eftir amstur síðustu vikna átti ég skilið að fá smá dúll fyrir mig. Allt annað að sjá mig og ég yngdist um einhverja mánuði við þetta. Sjálfur afmælisdagurinn byrjaði rólega, Erlingur fór í vinnu og ég skellti mér í brunch með stelpunum í bekknum mínum (hafði ekkert með afmælið mitt að gera). Við Erlingur höfðum planað að borða sushi um kvöldið og ég var því ekki glöð þegar ég fékk sms frá honum um tvöleytið að hann væri slappur og væri kominn heim!! Ég hugsaði sem svo að það væri lítið við því að gera og var ekkert að flýta mér heim. Þegar ég svo kom heim einhverju síðar tók Erlingur "greyið" á móti mér með teppi utan um sig og til að gera þessa löngu sögu stutta þá sitja mamma og pabbi í stofunni og Erlingur var bara ekkert veikur! Þau voru búin að plotta þetta síðan í byrjun desember og mig grunaði ekki neitt! Það var nú aldeilis gaman að fá þau svona óvænt í heimsókn og ekki verra að mamma var til í að prufa sushi (pabbi gerði það síðast þegar hann kom). Við áttum kósý kvöld saman yfir uppáhaldsmatnum mínum og mömmu líkaði hann ekki illa:)
Á laugardaginn hélt ég smá partý hérna heima í tilefni afmælisins. Ekki slæmt að mamma var í heimsókn og hjálpaði til við matseldina. Við vorum 14 (3 afboðuðu á síðustu stundu) og allt fór vel fram. Ég fékk allt of margar gjafir ... 2006 er til dæmis ár armbandsins:) þar sem ég fékk 4 stykki!!! Ég nota armbönd mikið þannig að þetta var hið besta mál. Mamma sá um að blanda drykki handa þeim sem vildu, namminamm ... Christian vinur minn talaði um að hún væri meiriháttar kúl og hann væri sko alveg til í að fá body tequila hjá henni! Ég var nú ekkert að segja henni það fyrr en daginn eftir hehehe. Partýið var meiriháttar skemmtilegt og vel heppnað. Mamma og pabbi flugu svo heim í gær og Helga fór svo með rútunni til Aarhus seinnipartinn, eftir þynnkustopp á MD.
Næstu vikur fara í lestur og undirbúning fyrir vörnina mína. Þar sem ég er búin að skila þá er ég ekkert að skrifa á dönsku líka:)
4. apríl eru 10 ár frá því við Erlingur hittumst og því ætlum við að skella okkur í ráðhúsið og ná okkur í pappír. Við verðum sennilega bara tvö en ætlum að halda gott partý helgina eftir. Stefnan er svo að giftast aftur á Íslandi næsta sumar ...
Konan á fertugsaldrinum:)