17.5.04

Grunnurinn!

Eins og góðri húsmóður sæmir þá hef ég valið rétt kvöldsins. Soðnar kjötbollur með kálbögglum, hljómar vel ekki satt?

En áður en ég læt uppskriftina flakka þá er best að minna á að alvöru húsmæður kaupa ekki kjötfars úti í búð!!!
Þær búa til sitt eigið kjötfars!

Uppskrift að heimatilbúnu kjötfarsi er á þessa leið (fyrir ykkur sem eruð gleymin þá myndi ekki saka að prenta uppskriftina og hengja fyrir ofan eldavélina):

1/2 kg hakkað kjöt
1 1/2 dl hveiti (má nota heilhveiti með)
1 tsk salt
1/4 tsk pipar
2-3 msk rifinn eða hakkaður laukur
1 egg
2-4 dl mjólk eða kalt kjöt- eða grænmetissoð

Svo er bara að hræra kjötinu og þurrefnunum saman í skál. Bæta egginu við og að lokum bæta mjólkinni við þar til farsið er hæfilega þykkt. Sumsé mjög einfalt og miklu betra en tilbúna farsið í búðinni! Auðvitað getið þið lesendur góðir prufað ykkur áfram með fleiri kryddtegundir eins og engifer og allrahanda og frískað þannig upp á farsið.

Svo er það nú réttur kvöldsins!

Þið byrjið á að sjóða saltvatn (1 l vatn og 2 tsk salt) í víðum potti. Mótið bollurnar með skeið og látið jafnóðum út í heitt vatnið. Sjóðið bollurnar við vægan hita í 5-10 mínútur (eftir stærð).
Þarnæst sjóðið þið kálblöð eð brytjað hvítkál í saltvatni (ekki eins mikið magn af saltvatni og með kjötbollurnar) í 1-2 mínútur.

Með þessum ljúffengna heimilismat getið þið valið á milli margra tegunda af meðlæti. Kartöflur, hrísgrjón, grænmeti og sósur er það vinsælasta í dag og mæli ég með karrýsósu. Grænar orabaunir standa líka alltaf fyrir sínu.

Þó svo að ég sé nú hámenntuð kona á sviði eldamennskunnar þá á ég nú ekki heiðurinn að þessum uppskriftum, heldur eru þær fengnar úr hinni stórgóðu biblíu "Við matreiðum" eftir Önnu Gísladóttur og Bryndísi Steinþórsdóttur.

Verði ykkur að góðu!

Njótið vel og munið að

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hakkað kjöt? Er það nágranninn eða frosinn kjúklingur?

Svona í alvöru, er þetta svínakjöt eða hvað áttu við?

3:28 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home