17.8.08

Kæri Jóli!


Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei getað haldið dagbók lengur en í viku, þannig að það er ekkert skrýtið að það gerist lítið á þessri blessuðu síðu.

Lítið að frétta síðan síðast.

Æfi ennþá og komin með 2. kup!
Vinn á fullu, gemlingarnir komnir í annan bekk!
Búin að versla (alltof) mikið síðan síðast!
Alpe d´Huez!
Veikindi!
Noregur!
USA!

Er á leiðinni í að henda inn myndum svona héðan og þaðan. Fyrir alla hina æstu lesendur þessa blessaða bloggs (ef einhverjir eru eftir!) þá er um að gera að senda mail eða skrifa í kommentin ef þið óskið eftir aðgangi að þessu gríðarlega leyndardómi sem myndaalbúm okkar hjóna er:)

Skrifa sennilega næst um jólin.
S

2.1.08

2008 ...



Shit ... Ég nenni engan veginn að koma með einhverja úrelta ferðasögu úr þessu. Veturinn hefur verið afar tilbreytingarlaus, vinna - éta - sofa - vinna - éta -sofa ...

Við skötuhjúin eyddum miklum tíma í klúbbnum í haust við endurbygginguna miklu. Það fór allt á flot í ágúst í skýfallinu mikla og nánast ALLT eyðilagðist. En með mikilli vinnu og blóði, svita og tárum hafðist þetta allt saman og rúmum þremur mánuðum síðar stóðum við uppi með nýjan klúbb. Ég var svo "frek" að ég skipti mér að mestu innkaupunum því að ég nennti ekki að fá klúbb sem inniheldur mublur í misgóðu ástandi héðan og þaðan og eyddi því miklum tíma í IKEA í leit að góðum tilboðum. Þetta hafðist allt saman og allir eru sáttir:)


Það er búið að vera mjög gaman í vinnunni í allan vetur, það er ekki að ástæðulausu að ég hef ekki skrifað. 7 ára börn eru endalausir viskubrunnar, ég gæti gefið út heilu ritverkin byggð á tilvitnunum frá þeim. Lífið er samt ekki alltaf dans á rósum þegar maður er lausráðinn, þ.e.a.s. ráðinn í eitt ár í einu, því að maður býr ekki við sama starfsöryggi og hinir, eins og ég upplifði í miklum mæli síðasta vor. Ég hef barist mikið fyrir að fá fastráðningu í allt haust (reyndar síðan um páskana) og setti heilmikið batterí í gang með því að hringja eitt símtal í stéttarfélagið fyrir hönd okkar lausráðnu á staðnum. Þetta varð heilmikil barátta, sem ég átti ekki beinan þátt í heldur lét trúnaðarmanneskjurnar um það, og svo fór að mér ásamt tveimur öðrum í sömu sporum var boðin fastráðning í desember. Þvílíkur léttir ... ráðningin er með afturvirkni, sumsé 1. ágúst 2007, sem segir það sem segja þarf:) Ég er því fastráðinn kennari og vá hvað það er góð tilfinning!

Við hjónakornin erum annars búin að eiga mjög afslöppuð jól og áramót. Í minningunni verða þetta svefn- og letijólin miklu. Við erum búin að endurhlaða batteríin svo um munar. Höfum varla farið út fyrir hússins dyr, heldur höfum við legið í sófanum og horft á bíomyndir og þess á milli "rippað" rúmlega 300 diska inn á mediacenterið. Eyddum svo smá pening um helgina í innanstokksmuni, og munu þeir berast í hús á morgun, jeminn hvað ég hlakka til. En að öðru leyti ......... letihátíð!

Nýja árið verður vonandi ánægjulegt. Nú þegar erum við ansi bókuð fram á vor. Erlingur fer tvisvar til USA núna á næstu tveimur mánuðum, held meira að segja að hann verði í burtu á afmælinu mínu, sussumsvei. Við förum svo í alpana í vetur með tengdó og Hennýju Hrund, ooooohhhh það verður sko næs. Ég fer svo sennilega til Ítalíu með kórnum í apríl ... já ég er byrjuð að syngja í kór. Skellti mér í íslenska kvennakórinn hér í borg í haust og raula þar með sóprönunum, voða gaman. Svo er kóreiski ki-masterinn (þessi sem reddaði tánum mínum í sumar) að koma í klúbbinn til að halda vikukúrsus og ég læt mig auðvitað ekki vanta. Já það er heilmikið að gerast þannig að það er óvíst hvenær ég skrifa næst. Þar að auki fékk ég Friendssafnið í jólagjöf og er að fara að dýfa mér í það á næstunni ...


over and out
Sigurveig

4.9.07

bleh ...

Shit hvað tíminn flýgur.

Ég má bara ekkert vera að einu né neinu þessa dagana.

Ísland var kúl, í öllum merkingum þess orðs!!

Vinnan er komin á fullt. Get ekki lýst því með orðum hvursu dásamlegt það er að kenna 7 ára viskubrunnum:) Maður getur ekki farið í vont skap þegar maður er nálægt þeim, og ég sem hélt að smábarnakennsla væri ekkert fyrir mig ... ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lengri tíma.

Mikið um að vera, næstu þrjár helgar eru planaðar í djamm og djús (diskótekunum á). 24. október er stefnan tekin hinum megin við hornið til að sjá Muse spila í Forum. Heil fjögur ár síðan við fórum síðast á tónleika með þeim þannig að tilhlökkunin er mikil.

Það er aldrei að vita nema ég riti smá ferðasögu um klakatúrinn á næstunni og aldrei að vita nema ég skelli inn eins og einni mynd með líka. Annars stendur til að gera lokað myndaalbúm eins og áður, og ef svo vill til að einhver lesendi þessarar síðu hefur áhuga á aðgangi að henni þá er viðkomandi velkomin/n til að "hnippa" í mig:)

8.7.07

Heima í bili!

Noregur var æði!

Ég æfði eins og vindurinn og naut lífsins í botn. Veðrið var svolítið breytilegt, rigndi svolítið mikið, en það skipti ekki miklu máli fyrir mig. Mér tókst reyndar að rústa tveimur tám á fimmtudaginn og þar með var þátttöku minni á æfingum lokið. Ferlegur bömmer:( Það var ki-master frá Kóreu með í ár og hann er algjör kraftaverkakall. Ég er mjög skeptísk á allt vúdú, þ.e.a.s. að fólk geti svifið á hugarorkunni o.s.frv. en ég er seld núna. Ég sá með mínum eigin augum hvernig fólki var "hrint/kastað" með hugarorkunni einni saman, ótrúleg upplifun. Kallinn "hrinti" einni konu úr klúbbnum mínum með því að beina höndunum að henni (hann stóð tveimur til þremur metrum frá henni) þannig að hún datt næstum því. Algjör matrix upplifun! Hann settist hjá mér á bekk á föstudagsmorguninn og hélt höndunum yfir tánum mínum (ég fann alveg mega þrýsting við það) og ýtti laust á örfáa staði í fótleggnum meðan hann var að spjalla við okkur yfir morgunkaffinu. Svo fór hann ca. 5 mínútum síðar og við sátum enn og spjölluðum í einhvern tíma. Nema að svo stend ég upp og hoppaði af stað af mölinni yfir á stéttina til að geta haltrað af stað í herbergið mitt og þá bara gat ég allt í einu staðið í fótinn, hreyft hann og GENGIÐ!!! Ég gat ekki einu sinni stigið í fótinn áður ... þetta var mjög spúkí og nánast allur verkur var farinn! Shit hvað okkur brá. Aldrei hefði ég trúað þessu. Þrátt fyrir þetta ákváðum við að keyra heim seinnipartinn degi fyrr en áætlað var því að ég gat ekkert æft hvort sem var og Erlingur var að fara fljúga til Seattle kl. 6 á sunnudeginum, í dag. Greyið Erlingur þurfti að keyra alla leiðina heim og það tók okkur 8 tíma með öllu ... hann var alveg búinn á því eftir það. Ég fór beint á slysó þegar við komum til Köben og var því ekki komin heim fyrr en kl. hálftvö um nóttina. Dokkinn vildi ekki mynda þetta (sagði að ég gæti fengið krabbamein - hans orð!!) þannig að sætu bólgnu dökksvarbláu og líklega brotnu tærnar voru bara teipaðar.

Við eyddum deginum í gær í afslöppun, Erlingur var útkeyrður. Átum dýrindis sushi í gærkvöldi með Ollýju og Alberti í tilefni afmælisins hans Alberts. Vöknuðum svo klukkan hálffjögur í nótt til að fara út á flugvöll, Albert keyrði fyrir mig. Erlingur átti sumsé að fljúga 05:55 til Amsterdam og þaðan um eittleytið til USA, nú er klukkan 13:45 og Erlingur situr enn á Kastrup og búinn að missa af fluginu sínu áfram. Það er einhver bilun sem búið er að reyna að fiksa í allan dag og annaðhvort verður flogið klukkan 16 í dag og hann gistir í Amsterdam eða þá að hann flýgur klukkan 05:55 í fyrramálið, sólarhring síðar. Ferlegur bömmer!! Hann er að fara á tvo stóra fundi úti og fór degi fyrr til að ná sér eftir jet-lagið en nú er allt ónýtt og hann eyðir helmingi lengri tíma í þetta en til stóð.

Þetta er þess vegna hin undarlegasta helgi. Pippi kemur hingað frá Amsterdam í kvöld. Það var nú ekki á planinu en litla greyið lenti í leiðinlegu atviki í gær svo ég pantaði bara miða fyrir hana hingað til mín svo hún sé ekki ein þarna úti. Hún verður sennilega hérna í einhverja daga meðan hún er að ná áttum, horfum á Dalalíf og svoleiðis.

Take care!

/S

28.6.07

Sumarfrí ...

Einn dagur eftir!!!

Ég er búin að vinna eftir löngum "to do"-lista síðustu daga og það hefur gengið nokkuð vel miðað við aldur og fyrri störf. Ýmis smáatriði sem vantar, en ekkert til að stressa sig yfir. Ollý og Albert verða bara að sætta sig við ruslið í íbúðinni ef ég næ ekki að þrífa.

Á morgun keyrum við af stað til Brandbu og við hlökkum mikið til. Google segir að vegalengdin sé tæpir 700 km svo þetta verður langur dagur. Við förum af stað fljótlega uppúr hádegi þegar ég kem heim úr vinnunni og reiknum með að ferðin taki ca. 8-9 tíma með öllum stoppum, ferju og vegatollum. Nú er bara að krossa fingur og vona að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir.

Hef þetta stutt í þetta sinnið. Er að undirbúa teamfund sem verður haldinn í kvöld og þarf líka að ganga frá síðastu vinnupappírunum fyrir sumarfríið.

/S

17.6.07

Til hamingju Ísland!

Þjóðhátíðardagurinn runninn upp ... skýjað með köflum og spáir rigningu og þrumum í dag ... við hverju er öðru að búast?

Ýmislegt hefur gerst síðan ég skrifaði síðast. Vinnumálin hafa farið fram og tilbaka. Eins og staðan er núna skrifa ég undir einsárssamning í skólanum mínum á næstu dögum og mun starta 1. bekk í ágúst. Það verður sko enginn dans á rósum ... 7 ára börn sem langflest eru ólæs og nýja brumið er engan veginn fallið eftir fyrsta árið þeirra í stubbunni. Þetta verður örugglega gaman en verður alveg þveröfugt við síðasta ár ... börn á þessum aldri elska nefnilega að vera í skóla og læra eitthvað nýtt og maður er dýrðlingur í þeirra augum, synd að það skuli ekki endast fram yfir 4.-5. bekk:(

Þetta þýðir að elskurnar sem ég er búin að vera að kenna í vetur fá nýja kennara, aftur!! Þau vita það ekki ennþá, en það verða sko mótmælaöskur þegar þau frétta það seinna í vikunni ... sérstaklega hjá foreldrunum. Við erum tvær sem erum þvingaðar burtu ... þar klikkaði skólastjórinn örlítið ... og aðrir þvingaðir inn í staðinn! Ótrúlegar aðferðir, en svona er það þegar maður er ekki fastráðinn og fastráðnir ganga fyrir (mitt tilfelli) og þegar dóttir skólastjórans vælir í pabba sínum og sér til þess að kennari sem hún fílar ekki er þvingaður í burtu, þrátt fyrir að sá kennari hafi kennt krökkunum í sex ár meðan dóttirin hefur haft þau í eitt ár ... smá skítafýla og málið er komið áfram í kerfinu:(

Anyway ... ég dreif mig í helgarferð til Pippi í Haag fyrir mánuði. Djömmuðum aðeins, ég eyddi allavega hálfum degi í kojunni (Pippi sefur í koju) og á sæta klósettinu hennar meðan hún sjálf lá og dormaði á sódanum og horfði á hollenska sápu. Ferlegur bömmer að lenda í svona þynnku ... en ekkert við því að gera, það var hvort sem er úrhellisrigning allan daginn. Síðar um kvöldið borðuðum við mexíkanskt og borðuðum bestu hot wings sem fást í Haag (fór þangað líka 2003) og enduðum á smá skralli seinna um kvöldið, vorum samt mun hófsamari en kvöldið áður. Fín, en aðeins of stutt, ferð ... verð bara að endurtaka þetta sem fyrst!

Ég er orðin föðursystir og mamma og pabbi loksins orðin amma og afi ... þrýstingurinn hefur því minnkað töluvert. Ég var sú eina sem var viss um að þetta væri stelpa alla meðgönguna og ég hafði rétt fyrir mér:) Pabbi var reyndar líka viss um að þetta yrði stelpa viku áður en hún fæddist. Mamma var handviss um að þetta væri strákur og sömuleiðis Lína og skildu ekkert í mér, hehe .... sjötta skilningarvitið!! Sú litla kom í heiminn sama dag og ég kom frá Hollandi á sjálfan mæðradaginn og er víst alger engill.

Helene vinkona fæddi fimm dögum síðar hana Dagmar Louise og allt gekk vel að mér skilst. Hlakka til að sjá báðar stúlkurnar í eigin persónu.

Sumarfríið er annars alveg að koma. Aðeins tvær vinnuvikur eftir. Við förum á sumaræfingabúðir í Noregi strax eftir vinnu hjá mér þann 29/6 og verðum í viku. Ollý, Albert og dísirnar verða í íbúðinni á meðan og sjá um blómið okkar. Önnur plön fyrir sumarið eru í vinnslu. Fer allt eftir veðri og vindum. Talandi um veðrið, það er sko aldeilis búið að vera sumarveður hér síðustu vikur, 30 gráður og algjör steik!! Reyndar er komin rigning núna en ... maður hefur fengið smá bragðprufu af því sem vonandi bíður. Það var frekar ógeðslegt að kenna í þessu veðri, krakkarnir ná engan veginn að einbeita sér að námsbókunum. Það var ekki hægt að vera utandyra með þau nema í skugganum og ofan á allt voru mörg þeirra illa sóbrennd, bitin og með vott af sólsting, ég sendi 4 nemendur heim einn daginn, sökum vanlíðan!!

Af öðrum hlutum er það að frétta að ég bætti svartri strípu í rauða beltið mitt í gær, jibbýkóla!! Stóð mig eins og hetja og fékk fínar einkunnir og no comment frá prófdómaranum:) Nú er ég sumsé 3. kup ... hver hefði trúað því? Við sluppum ansi billigt í gær þar sem loftræstikerfið var ekki að gera sig í salnum og við svitnuðum eins og ég veit ekki hvað. Dómarinn valdi því að við þyrftum ekki að fara í gegnum alla grunntæknina og sluppum líka við bardaga á móti tveimur. Við eigum að berjast tvö og tvö í 3x3 mín. í fullum herklæðum, hjálmur vesti, hand/fót/klofhlífar og tannhlífar og það er drulluerfitt undir venjulegum aðstæðum. En þegar loftið er svo þungt og ógeðslegt eins og í gær var þetta meira en að segja það og þegar við í lokin áttum að slást á móti tveimur sagði dómarinn stop. Shit hvað ég var fegin því það er típískt þar að maður meiðist, allavega ég, hehehe, því maður sparkar bara á allt sem hreyfist. Annars ligg ég í leti hér heima í dag ... helaum í höndinni eftir að hafa hamrað í gegnum þykka tréplötu í gær. Ætla að hafa það náðugt, hlusta á góða tónlist og drekka gott kaffi. Fáum Christian og Jan (kirkjuvörð) í mat annað kvöld þannig að við tökum sennilega smá tiltektarrispu á eftir. Það verður gaman að fá þá hingað enda hefur Erlingur ekki hitt Jan áður og Christian er viss um að þeir eigi eftir að ná vel saman, og ég líka:) Man ekki eftir að hafa séð Christian svona happý í langan tíma.

Lifið heil og hagið ykkur vel!

21.4.07

Sumar og sól:)

Sumarið kom og fór um síðustu helgi. Þvílíkt dásemdarveður, 23 gráður, heiðskýrt og sól alla helgina. Við eyddum auðvitað góðum tíma við lestur og sólbað í kirkjugarðinum og mikið var það nú notalegt. Nemendur og kennarar mættu léttklæddir í skólann á mánudaginn og nutu góða veðursins milli kennslustunda, bara yndislegt! Eitthvað var kaldara á þriðjudaginn, ég mætti allavega í síðbuxum í vinnuna, og á miðvikudaginn var skítkalt. Fimmtudagurinn var blautur og kaldur, 8 gráður, rok og rigning. Sennilega veses á skrifstofu veðurguðanna, kannski kjarasamningabarátta? Núna eru rúmar tólf gráður úti svo þetta er allt á uppleið aftur og spáin segir tæpar 20 gráður um miðja viku, jibbí!! Það er pínu depressing að sætta sig við kulda þegar maður upplifði sumrið um síðustu helgi.



Vinnan gengur vel, ég hef allavega ekki enn verið lögð inn. Stend í leiðindamáli þessa dagana, foreldrar að skipta sér af kennslunni minni, en það leysist vonandi í vikunni. Ég er að fara á Louisiana tvisvar í næstu viku. Allir 6. bekkirnir fara og ég fer með tveimur þeirra, læri örugglega helling á því enda eru bekkirnir eins og svart og hvítt!! Vormánuðirnir munu einkennast af stærðfræðiprófum því að krakkarnir þurfa að taka tvö stykki, eitt skriflegt kommúnupróf og eitt nationaltest á netinu. Það verður hellingsvinna fyrir mig að fara yfir kommúnuprófin, lágmark tíu klukkutímar á bekk (sumsé lágmark 20 fyrir mig), en á móti kemur að ég þarf ekki að undirbúa mikla kennslu á tímabilinu:)


















Við hjónakornin héldum upp á pappírsbrúðkaup í Prag í páskavikunni. Ferðin var yndisleg í alla staði, við túrhestuðumst eins og við fengjum borgað fyrir það og sötruðum góðan bjór við öll tækifæri. Prag er mjög falleg borg, sem ég er alveg til í að heimsækja aftur, og fólkið mjög vingjarnlegt. Við bjuggum á fínu hóteli, og lifðum eins og kóngur og drottning. Eftir þrjár nætur í Prag keyrðum við til Wroclaw í Póllandi þar sem við gistum eina nótt. Vinnufélagi Erlings var akkúrat staddur í borginni til að heimsækja unnustu sína og við fengum því prívat leiðsögumann, sem sýndi okkur allt það helsta og kynnti okkur fyrir leyndardómi pólsks bjórs. Jeminn eini, við drukkum hvern bjórinn á eftir öðrum, nýja tegund í hvert skipti, og þeir voru allir syndsamlega góðir ... thumbs up fyrir pólskum brugghúsum!! Við renndum í hlað hér heima að kvöldi föstudagsins langa, útkeyrð eftir páskaumferðina á Berlínarhringnum. Allt í allt keyrðum við 2000 km í ferðinni, sennilega 90% af því var hraðbrautarakstur!!



Næstu ferðalög eru í athugun. Mig langar til Hollands í maí og til Íslands í júlí ... kemur allt í ljós síðar.



Af barneignum í kringum okkur er heilmikið að gerast ... ég bíð spennt eftir að verða föðursystir, sem sennilega mun gerast innan tveggja vikna. Helene vinkona mín á svo að eiga eftir þrjár vikur þannig að það er brjáluð spenna í gangi.

Þar til næst ...